Málþing um náttúrufræðimenntun

Erindi, kynningar og smiðjur.

Ágrip lota 2 Laugardag kl. 9

Ágrip málstofur í lotu 2, laugardag kl. 9:00-10:00   Sjá dagskrá og Zoom stofur

Stofa A

A4. Science on Stage – vettvangur til endurmenntunar

Ásdís Ingólfsdóttir, Kvennaskólinn í Reykjavík
Um er að ræða kynningu á ráðstefnu evrópsku kennarasamtakanna Science on Stage sem haldin er annað hvert ár. Þar koma saman raungreinakennarar af öllum skólastigum og segja frá sínu starfi og skoða það sem helst er að gerast í öðrum löndum. Hvert land setur upp sýningarbása þar sem kynnt eru verkefni í fjölda námsgreina af öllum skólastigum s.s. líffræði, efnafræði, eðlisfræði, jarðfræði, landafræði, umhverfisfræði, stjörnufræði, heimilisfræði, hagfræði og haffræði.

A5. Hart í bak? Á að breyta áherslum í líffræðikennslu?

Ólafur Halldórsson, Kenndi við V.Í.
“Hart í bak? Um það hvort rétt væri að breyta áherslum í líffræðikennslu í framhaldsskólum. Í þessu efni er ekki til eitt sannanlega rétt svar – heldur fremur skoðun eða tilfinning.
Skoðun mín, eftir alllangar pælingar er í stuttu máli þessi:
Í framhaldsskólum á að fjarlægja veggi á milli greina. Tengja saman raungreinar, sögu, listir og bókmenntir.
Slík nálgun á að geta víkkað út reynsluheiminn, teygt hann í allar áttir ef vel er á haldið.
Það er nægur tími til að stíga inn í innrammaðar þekkingargreinar þegar í háskóla er komið.
Hér eru nokkur dæmi um nálgun á þessu viðfangsefni
• Gera líffræðina ”mýkri viðkomu”, t.d. með tengslum við aðra þætti í umhverfi og upplifun mannfólksins
• Sláandi lýsingar og annað efni sem grípur athygli
• Almenn kynning á raungreinum, t.d. líffræði, á að miðast við að laða nemendur að. Hafa slíka kynningu í tengslum við fleira en raungreinar.
• Forsenda fyrir að tengja raungreinar við íslenskar bókmenntir og fræði almennt er að kennsluefni sé á íslensku!

A6. Matarspor og kolefnisspor máltíða

Sigurður Loftur Thorlacius EFLA verkfræðistofa
Ein mesta ógn sem mannkynið stendur frammi fyrir í dag er loftslagsvá vegna losunar gróðurhúsalofttegunda. Til þess að sigrast á loftslagsvánni þarf að auðvelda fólki að taka upplýstar ákvarðanir en matur veldur þriðjungi af neysludrifnu kolefnisspori Íslendinga. Matarspor er verkfæri sem birtir kolefnisspor máltíða með myndrænum hætti og auðveldar þannig notendum að taka upplýsta ákvörðun um eigin neyslu. Í kynningunni verður fjallað um kolefnisspor matar í víðu samhengi og hvernig Matarspor getur nýst mötuneytum til að draga úr kolefnisspori sínu.

Stofa B

B4-6. Hringborðsumræða um þjónustu við kennara og nemendur

Meyvant Þórólfsson
Menntavísindasvið HÍ Hinn 11. febrúar síðastliðinn stóð umsjónarmaður þessarar hringborðsumræðu fyrir samráðsfundi með nokkrum aðilum sem hafa veitt kennurum og nemendum þjónustu á sviði náttúruvísinda (sbr. fræðslusetur, vísindasmiðjur o.s.frv.). Hringborðsumræðan hér og nú tekur mið af niðurstöðum þess fundar og er þannig hugsuð sem eins konar framhald hans.

Hringborðsumræðan tekur 1 klukkustund.

Stofa C

C4.  Reynsla unglinga af námi í náttúrufræði í Árborg : upplifun nemenda í 9. bekk af endurgjöf um stöðu þeirra og framfarir í náminu Fellur niður

Halldóra Björk Guðmundsdóttir
Markmið þessa rannsóknarverkefnis var að skoða reynslu og upplifun nemenda í 9. bekk af náttúrufræðinámi sínu og endurgjöf frá kennara.
Eigindlegri aðferð var beitt með hálfopnum rýnihópaviðtölum við 12 hópa nemenda allra þriggja grunnskólanna í sveitarfélaginu Árborg vorið 2020.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að flest viðfangsefni nemenda í náttúrufræði byggist á sjálfsprófum og verkefnum í lok hvers kafla kennslubóka. Tilgreind voru nokkur verkleg viðfangsefni sem virtust nemendum eftirminnileg. Mörgum þótti námið ganga ágætlega en flestum þótti of mikil áhersla lögð bóklega vinnu og vildu meiri fjölbreytni, fleiri hópverkefni og verklegar athuganir.
Niðurstöður sýna að nemendur þekkja ekki hvaða hæfniviðmiðum verkefni þeirra og viðfangsefni tengjast og fáir þeirra skoða þau sjálfir.
Að mati nemenda i 9. bekk í náttúrugreinum virtist tíðni endurgjafar um stöðu í námi og framfarir vera að vissu leyti regluleg en hún/endurgjöfin/námsmatið felst í því að nemendur fá eina einkunn (tölu eða bókstaf).
Við lok gagnöflunar komu fram teikn um þróun endurgjafar til nemenda sem virðast tengjast vinnulagi á netinu vegna Covid-faraldursins. Niðurstöður benda til að gagnlegt geti verið að hafa formlegt samstarf náttúrugreinakennara í Árborg með áherslu á kennsluhætti, markvissa endurgjöf til nemenda um stöðu þeirra og framfarir og farið yfir mikilvæg næstu skref.

C5. Náttúrufræðikennsla – Með forvitni að leiðarljósi

Hildur Arna Håkansson
Í erindi mínu ætla ég að fjalla um kennsluna mína og hvernig hún hefur þróast yfir í nemendmiðað nám sem ýtir undir styrkleika og áhuga hvers og eins. Einnig fjalla ég um mikilvægi þess að hafa forvitni að leiðarljósi, fjölbreyttar kennsluaðferðir og tengingu námsins við daglegt líf.  Vefsíða: http://bit.ly/natturufraedikennsla

C6. Vidubiology

Ragnheiður Alma Snæbjörnsdóttir, Sandgerðisskóli
Þróun kennsluefnis sem snýr að notkun myndmiðlunar í líffræðikennslu stendur nú yfir undir heitinu Vidubiology. Hvatinn að þróun þessa kennsluefnis var að efla áhuga og skilning ólíkra nemendahópa á lífvísindum. Rannsóknarspurningar verkefnisins eru: 1) Hver eru áhrif notkunar myndmiðlunar í verkefnavinnu á viðhorf og skilning nemenda á líffræði? 2) Hver eru áhrif myndmiðlunar nemenda í líffræðinámi á virkni í fjölbreyttum nemendahópi?

Meginniðurstöður rannsóknarinnar eru þríþættar. Í fyrsta lagi sýndi rannsóknin að þeir nemendur sem tóku þátt í rannsókninni voru jákvæðir gagnvart líffræði og þeim þótti vinnan skemmtileg. Verkefnið hentaði fjölbreyttari hópi nemenda en bóknám og nemendur upplifðu sig sem virka þátttakendur í eigin námi. Sem dæmi má taka að börn sem glíma við erfiðleika svo sem athyglisbrest og ofvirkni (e. Attention Deficit and Hyperactive Disorder) eða hafa annað móðurmál en íslensku áttu auðveldara með að taka þátt. Í öðru lagi sýndu niðurstöðurnar, að notkun myndmiðlunar var sérstaklega gagnleg í útikennslu. Í þriðja lagi sýndu niðurstöðurnar hvaða nám átti sér stað hjá nemendum bæði frá sjónarhorni nemendanna sem og kennaranna. Nemendur sáu ekki að skilningur þeirra eða þekking á viðfangsefnum hefðu aukist eftir framkvæmd verkefnisins. Samt sem áður töldu nemendur hæfni sína hafa aukist bæði í að taka ljósmyndir og myndvinnslu.

Vefsíða verkefnisins: Hugmyndafræðin á bak við vidubiology verkefnið er hér kynnt í 40 síðna bæklingi ásamt leiðbeiningum um verkefnið, reynslusögum og helstu niðurstöðum rannsókna.