Ágrip málstofur í lotu 3, laugardag kl. 10:15-11:15 Sjá dagskrá og Zoom stofur
Stofa A
A7. Tæknisnjöll börn
Saga Hilma Sverrisdóttir og Jóhanna Stella Oddsdóttir, leikskólinn Holt og leikskólinn Dalur
Þessi kynning mun fjalla um B.Ed verkefnið okkar sem er verkefnasafn fyrir leikskólastarf. Verkefnin miða að því að börn geti nýtt upplýsingatækni á skapandi hátt í tengslum við útinám, vísindi og læsi. Verkefnin voru prófuð á tveimur leikskólum og þróuð áfram. Upplýsingatækni er orðin hluti af hversdagsleika barna og fullorðinna. Það skiptir máli að börnin læri að meðhöndla tæknina á viðeigandi hátt. Kennarar gegna þar lykilhlutverki að færa tæknina inn í leikskólana. Reynsla okkar sýndi að verkefnin ganga vel með leikskólabörnum, þau voru áhugasöm og skemmtu sér ágætlega. Verkefnalýsingarnar má finna á vefsíðunni: https://snjollborn.com/
A8.Umhverfismennt í gegnum S.T.E.M. Verkefnasafn fyrir leikskóla.
Ingibjörg Lilja Kristjánsdóttir Heilsuleikskólinn Skógarás
Umhverfismennt í gegnum S.T.E.M. Verkefnasafn fyrir leikskóla. Kynning á verkefnasafni sem var hluti að B.Ed. lokaverkefni í leikskólakennarafræðum. Tilgangur verkefnasafnis er að efla umhverfisvitund leikskólabarna á skemmtilegan hátt í gegnum S.T.E.M. greinar. En S.T.E.M. stendur fyrir science, technology, engineering og mathematics. Hugmynd verkefnasafnsins spratt út frá eRasmus+ verkefninu Eco Tweet, sem að Heilsuleikskólinn Skógarás tók þátt í á árunum 2018-2020, ásamt 5 öðrum leikskólum víðsvegar um Evrópu.
Verkefnasafnið skiptist í 3 þemu, loft, vatn og land. Í hverju þema er farið yfir tengingu þess við okkur mannfólkið og hvað við getum gert til að sporna við mengun í því. Einnig eru skemmtileg verkefni fyrir börnin að leysa, ýmist tilraunir, athuganir og/eða Bee-Bot leikir.
Með því að fletta saman umhverfismennt og S.T.E.M. er verið að vinna með alla grunnþætti menntunar og um leið heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
A9. Orðræða um sjálfbærnimenntun í leikskólanámskrám
Kristín Norðdahl
Markmið rannsóknarinnar sem hér er sagt frá var að skoða orðræðu um sjálfbærnimenntun í skólanámskrám leikskóla. Samkvæmt Aðalnámskrá leikskóla (2011) eiga allir leikskólar að skrifa skólanámskrá um hvernig ætlunin er að vinna í samræmi við aðalnámskrána. Í rannsókninni voru 16 leikskólanámskrár greindar með sögulegri orðræðugreiningu til að koma auga á aðaláherslurnar í orðræðunni. Fræðilegur bakgrunnur rannsóknarinnar byggir á rannsóknum og kenningum sem styðja við sjálfbærnimenntun.. Í ljós kom að í flestum leikskólanámskránum var fjallað um sjálfbærnimenntun, sem bendir til að stefnt sé að slíkri menntun. Í leikskólanámskránum var þó ekki lögð áhersla á sjálfbærnimenntun og umfjöllun um hana var takmörkuð. Sjálfbærni var að mestu tengd við umhverfis- og efnahagsleg málefni, svo sem um verndun og skynsamlega nýtingu náttúrunnar . Í fáum skólanámskrám var fjallað um félagsleg málefni, svo sem um heilsu og vellíðan og um jafnrétti. Einnig var lítið fjallað um leiðir til að efla getu barna til að taka þátt í samfélaginu.
Stofa B
B7. Eðli og sérstaða náttúruvísinda
Meyvant Þórólfsson, Menntavísindasvið HÍ
Höfundur byggir m.a. á doktorsverkefni sínu frá 2013, Transformation of the Science Curriculum. Tilgangurinn er að varpa ljósi á eðli og sérstöðu náttúruvísinda sem námssviðs í almenna skólakerfinu.
1. Síbreytilegt námssvið. Þeir sem kynna sér sögu náttúruvísindamenntunar fara ekki í grafgötur um hve óstöðugt námssvið þar er um að ræða og síbreytilegt. James Donnelly og Edgar Jenkins (2001) lýstu þessari eilífu tilhneigingu til breytinga sem reglu eða eins konar „rétttrúnaði“ (e. orthodoxy).
2. Ekki heilsteypt námssvið. Ivor Goodson (1994) benti á að náttúruvísindi hefðu í raun ekkert fast innra skipulag, þau væru síkvik blanda ólíkra hefða og sjónarmiða (e. shifting amalgamations of traditions and views). Þau snúist ýmist um fyrirbæri daglegs lífs (e. science of common things) eða taki á sig mynd akademískra fræðigreina með tengslum við háskólamenntun.
3. Ekki dæmigert bóknám. Náttúruvísindi eru ekki dæmigert bóknámsfag. Þau snúast um rannsóknir á náttúrunni sjálfri, „hinum innri öflum hinna dauðu náttúrulíkama…[og] hinum innri öflum hinna lifandi náttúrulíkama“ eins og J.G. Fischer orðaði það í formála merkilegrar kennslubókar frá árinu 1852. Kjörumhverfi og -aðstæður til náms eru því ekki hefðbundið kennslustofuskipulag.
Í erindinu er þróun náttúruvísinda í íslenska skólakerfinu skoðuð í framangreindu ljósi.
B8. Um gegnumgangandi í hugmyndir í „Next Generation Science Standards“
Haukur Arason, Dósent í eðlisfræði og náttúrufræðimenntun. Deild faggreinakennslu, Menntavísindasviði, Háskóla Íslands.
„Next Generation Science Standards“ (NGSS) en það eru viðmið um náttúruvísindamenntun barna og unglinga á grunnskólaaldri sem er nokkuð útbreidd í Bandaríkjunum og samsvara að einhverju leiti til þeirrar opinberu námskrár í náttúrufræðum sem gefin er út af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu hér á landi. Þetta eru mjög yfirgripsmikil viðmið um nám í náttúruvísindum bæði hvað varða nám í hinum ýmsu greinum náttúruvísinda en einnig um þverfaglega þætti sem námið ætti að taka á. Þessum þverfaglegu þáttum í NGSS er skiptu upp í tvennt, annars vegar aðferðir náttúruvísinda og verkfræða og um tengsl vísinda og tækni og hins vegar eru ákveðnar gegnumgangandi hugmyndir (e. Crosscutting concepts) sem samkvæmt NGSS er ætlast til að þróaðar séu með nemendum jafn og þétt á meðan á námi þeirra stendur. Í þessu erindi verða þessar gegnumgangandi hugmyndir kynntar og ræddar en þær eru eftirfarandi: 1. Mynstur, 2. Orsök, afleiðing: Ferli og skýringar, 3. Kvarðar, hlutföll og magn, 4. Kerfi og líkön af kerfum, 5. Orka og efni. Flæði, hringrásir og varðveisla, 6. Form og virkni (e. Structure and function) og 7. Stöðugleiki og breytingar (e. Stability and change).
B9. Samanburður á eðlis-, efna- og stjörnufræði viðfangsefnum í íslenskum námskrám frá 1999 og 2013 og í „Next generation science standards“
Bjarni Sævar Þórsson, meistaranemi, Deild faggreinakennslu, Menntavísindasviði, Háskóla Íslands.
Haukur Arason, Dósent í eðlisfræði og náttúrufræðimenntun. Deild faggreinakennslu, Menntavísindasviði, Háskóla Íslands.
Fjallað verður um meistaraverkefni þar sem borið var saman eðlisfræði, efnafræði og stjörnufræði innihaldi í þrem námskrám, það er aðalnámskrá grunnskóla 1999, aðalnámskrá grunnskóla 2013 og Next Generation Science Standards. Verkefnið fólst í því að greina þessar námskrár og finna þau viðmið sem tengjast þessum fræðigreinum, athuga hvernig þessi viðmið eru tengd aldursstigum í þessum námskrám. Í niðurstöðum meistaraverkefnisins má sjá samanburð á því hvernig viðmið námskránna eru tengd allnokkrum undirflokkum eðlis-, efna- og stjörnufræði, raðast á aldursstig og hvar og hvernig þessi viðmið birtast. Miðað var við lista af hugtökum tengdum þessum greinum við sem unnin var upp úr íslenskum námsbókum fyrir grunnskóla. Helstu niðurstöður eru að það er greinilegur munur á viðmiðum í þessum þrem námskrám. Sérstaklega má sjá mun milli aðalnámskrá grunnskóla 2011/13 og hinna tveggja, NGSS og aðalnámskrá grunnskóla 1999. NGSS er mun stærra rit og þar eru viðmið fyrir nemendur frá 6 ára til 18 ára og eru því sum viðmið fyrir unglingastig á hærra stigi en í íslensku námskránum og er þar farið ítarlega í hvern bekk í grunnskóla og skilgreind viðmið í eðlis, efna og stjörnufræði. Það er einnig mikill munur á uppsetningu þessara viðmiða í íslensku námskránum og má sjá að viðmiðin í aðalnámskrá grunnskóla 1999 eru mun ítarlegri en í núgildandi námskrá þar sem viðmiðin tengd eðlis-, efna- og stjörnufræði eru fá, sum óljós og greinunum ekki gerð vel skil.
Stofa C
C7. Kennaranámskeið og verkfærakistur
Ari Ólafsson og Martin Swift, Vísindasmiðja Háskóla Íslands
Vefsíða Vísindasmiðjunnar: http://visindasmidjan.hi.is/
Vísindasmiðja HÍ hefur sett sér stefnu um stuðning við störf náttúrufræðikennara, m.a. með því að kynna aðferðir og búnað við verklega kennslu. Í vinnustofunni verður fjallað um tvær nátengdar leiðir sem við höfum reynt; annars vegar símenntunarnámskeið um afmörkuð efni og hins vegar safn af tólum og búnaði sem við köllum verkfærakistur. Leiðirnar eru í sífelldri mótun og nú óskar Vísindasmiðjan eftir hugmyndum og ábendingum kennara um form og innihald.
Símenntunarnámskeið:
Verkleg kennaranámskeið Vísindasmiðjunnar hafa oftast verið haldin í ágúst fyrir 10 til 15 manns. Hafa viðfangsefnin verið valin með hliðsjón af þeim búnaði sem skólarnir eiga eða geta nálgast nokkuð auðveldlega. – Hér væri gagnlegt að fá umræður og ábendingar um form, innihald, forgangsröðun efnisflokka, stað og stund o.s.frv.
Verkfærakistur:
Vísindasmiðjan gaf öllum grunnskólum landsins Ljósakassa fyrir nokkrum árum. Verkefnið var mjög umgangsmikið og var fjármagnað af HÍ og samstarfsaðilum. Kassinn inniheldur margvíslegan búnað til kennslu um ljós og liti. Myndbönd hafa verið gerð um notkunina og haldin vinsæl kennaranámskeið.
Uppi eru hugmyndir um aðra verkfærakistu með búnaði fyrir efnisflokkinn „rafmagn“ en í stað þess að Vísindasmiðjan fjármagni kistuna, þá verði þetta í formi nokkurskonar pöntunarfélags. Hér væri mjög gagnlegt að heyra álit kennara um hentugt og raunhæft fyrirkomulag.
C8. Þjarkar, þrautir og Ungir vísindamenn
Ragna Skinner, Vísindasmiðja Háskóla Íslands og Davíð Fjölnir Ármannsson, Verkfræði- og Náttúruvísindasvið Háskóla Íslands
First Lego League – 10 til 16 ára:
Í FLL keppninni er unnið þverfaglega á námsgreinar grunnskólans (s.s. forritun, náttúruvísindi, tæknimennt, hönnun og lífsleikni) og skiptist keppnin í forritun og hönnun, rannsóknarverkefni, miðlun (kynning og básagerð) og liðsheild.
Þema hvers árs byggir á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og þátttakendur öðlast tækifæri og hæfni til að leysa viðfangsefni sem tengjast samfélaginu og mæta þeim áskorunum er felast í samfélags- og tæknibreytingum.
FLL kallar á örvandi námsumhverfi þar sem nemandinn samþættir þekkingu sína og leikni, samtímis því að þjálfast í samskiptum sem byggjast á virðingu og jafnrétti. Nemendur æfast í að tjá skoðanir sínar og útskýra á ábyrgan, gagnrýninn og skýran hátt.
Ungir Vísindamennn – 15 til 20 ára:
Keppnin er verkefni á vegum Evrópusambandsins sem hefur það markmið að efla hæfni ungs fólks til að vinna að rannsóknarverkefnum og stuðla að auknu frumkvæði og sjálfstæðum vinnubrögðum.
Viðburðurinn skiptist í Landskeppni og Evrópukeppni (EUCYS), sem sigurvegarar Landskeppninnar taka þátt í. Allar vísinda- og tæknigreinar eru jafnhæfar til keppni!
Rannsóknarverkefnin fela í sér nýjungar á sviði fræða, vísinda og tækni en þurfa ekki að vera hrein nýsköpun, hugmyndirnar mega vera byggðar á eldri verkefnum. Aðalatriðið er að nota hina vísindalegu aðferð, finna nýjan flöt eða koma með nýja hugmynd.
C9. Náttúruvísindi í sköpunarsmiðjum
Svava Pétursdóttir, Menntavísindasvið Háskóla Íslands
Undanfarin misseri hafa skólar verið að prófa sig áfram með verkefni þar sem ýmsar námsgreinar eru samþættar undir merkjum sköpunar og tækni. Í erindinu verða skoðuð ýmis dæmi um slík verkefni og hvernig, vísindi, sköpun, lausnaleit og tækni fléttast saman og styðja við hvort annað. Vinna í smiðjunum styður gjarnan við lykilhæfni aðalnámskrár og hæfi til 21. aldar.