Málþing um náttúrufræðimenntun

Erindi, kynningar og smiðjur.

2017 – Efni málþings – Ágrip/lýsing efnis

Hér má nálgast heildardagskrá ráðstefnunnar: Dagskrá_2017_til útprentunar

Sameiginlegum viðburðum í upphafi dagskrár á föstudegi og laugardegi var streymt í gegnum netið og þeir teknir upp. Hér má nálgast upptökur.

Föstudagurinn 31. mars 2017: Setning málþings og inngangserindi.

Laugardagurinn 1. apríl 2017: Innlegg og pallborð.

Hér á eftir koma lýsingar á málstofum og smiðjum. Flestir fyrirlesaranna hafa gefið leyfi til að birta það efni sem kynnt var á málþinginu. Fyrirsagnirnar hér fyrir neðan verða bláar (virkir tenglar) eftir því sem efnið er sent inn og aðgengi veitt að því hér á síðunni.

Föstudagur 31. mars 2017 – fyrri hluti

Málstofa A – Náttúra og umhverfi. Stofa H201, kl. 14:45–15:45

Skólaumhverfið sem uppspretta náms

Brynhildur Bjarnadóttir, Háskólinn á Akureyri

Að tvinna saman vinnu um náttúru og menningu í skólastarfi, má flokka til grenndaraðferða. Náttúrufræðingurinn Helgi Hallgrímsson benti á, fyrir margt löngu síðan, að mikilvægt væri að kenna nemendum að þekkja, meta og virða umhverfi sitt. Það telur hann að verði best gert með því að samtvinna námsgreinar sem snúast um náttúru og menningu m.ö.o. með grenndaraðferðum. Háskólinn á Akureyri stendur í miðju bæjarins umvafinn umhverfi sem býður upp á mikla möguleika á námi sem tengja má við bæði náttúru og menningu. Klappir, hvalbök, plöntur, dýr og fleiri fyrirbrigði náttúrunnar má finna í nærumhverfi skólans. Fjöldi örnefna, ýmis mannvirki og fjölbreytt landslag einkenna enn fremur svæðið.

Í þessu erindi verður fjallað um þá hluta náttúrunnar sem nota má sem uppsprettu náms í umhverfi Sólborgar. Á hverju ári nýta kennaranemar við Háskólann á Akureyri sér nærumhverfi skólans og safna ýmsum smádýrum og plöntum auk þess sem þeir fylgjast með árstíðabreytingum, vexti trjáa og kynna sér þætti úr sögu og menningu svæðisins. Markmiðið er að gera nemandann læsan á bæði náttúru og menningu svæðisins og enn fremur að kynna þá kennslumöguleika sem felast í ólíku umhverfi þess skóla sem nemandinn mun síðar starfa við.

Náttúra og menning

Bragi Guðmundsson, Háskólinn á Akureyri

Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur skrifaði nokkrar greinar í Dag á Akureyri 1982-1983 sem hann nefndi „Umhverfi og minjar“. Hann segir í þeirri fyrstu að umhverfi bæjarins sé „eins konar náttúrugripasafn“ og fjallar síðan um Kotárborgir og Hamarkotsklappir, Neðra Glerárgil og Efri-Gleráreyrar. Helgi segir svæðið mega með réttu kalla „Miðgarð Akureyrar“. Markmið hans með greinaflokknum var ekki síst að ná til kennara sem hann sagði hljóta að hafa þeim skyldum að gegna „að kenna nemendum sínum að þekkja, meta og virða umhverfi sitt.“

Helgi Hallgrímsson er mikill áhugamaður um tengsl náttúru og menningar, ekki síst þeirrar arfleifðar sem er flestum hulin. Hér verður fetað í slóð hans í „Miðgarði Akureyrar“ og lesið í sumt það er ýmist blasir við ellegar dylst venjulegum augum. Örnefni verða skoðuð, skyggnst í hulduheima og svipast um til mannvirkja. Markmiðið er að gæða umhverfið lífi, ljá því lit sem auðveldlega má vinna áfram með börnum og unglingum. Það að lesa í umhverfi og menningu í þeim tilgangi að spinna heillegan námsþráð rúmast vel undir merkjum grenndaraðferðar í skólastarfi. Með henni er auðvelt að samtvinna námsgreinar og vonandi tryggja meiri heildarskilning en ella.

Búum til litla bók úr einu blaði

Svala Jónsdóttir, meistaranemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Meistaraverkefni Svölu Jónsdóttur er að semja náttúruverkefnabók fyrir kennara og hún mun kynna eitt af verkefnum bókarinnar. Feltbækur eru ein mikilvægustu tæki lífvísindanna en kosta oft gríðarlega mikinn pening. Á þessari kynningu mun hún kenna hvernig hægt er að breyta stöku blaði í 8 blaðsíðna bók og ræða hvernig hægt er að nýta slíkar smábækur í kennslu og námi.

Málstofa B – Biophilia. Stofa H203, kl. 14:45–15:45

Biophila varð til sem listaverk, en í menntaverkefninu er lögð áhersla á þverfagleg vinnubrögð, samkennslu, að virkja nemendur og vekja áhuga þeirra á vísindum og tónlist. Í þessari málstofu er sagt frá hvernig til tókst í einum leikskóla og einum grunnskóla en alls tóku fimm grunnskólar, tveir leikskólar og eitt frístundaheimili þátt í verkefninu árin 2014-2016 þegar það var menntaverkefni Norrænu ráðherranefndarinnar sem Ísland veitti þá forsæti.

„Eitthvað sem maður býr til úr vír eða eitthvað“ Biophilia-menntaverkefnið á leikskólanum Kvistaborg

Málmfríður Einarsdóttir, leikskólinn Kvistaborg

Kvistaborg hóf þátttöku í verkefninu í ágúst 2015. Þátttakendur voru 24 börn fædd 2010. Ákveðið var að vinna með smáforritið Moon og það fyrsta sem var gert var að finna til kennsluefni og einfalda það fyrir 5 ára aldur. Útsjónarsemi kennara og áhugasamir nemendur var allt sem þurfti, vinnan fór strax á flug. Fjöruferðir, safnaferðir, skapandi starf, tónlistartímar, allt starfið í leikskólanum snérist um Biophilia-verkefnið. Verkefnið smellpassar inn í grunnþætti menntunar í leikskólastarfi, læsi, sjálfbærni,lýðræði og mannréttindi,jafnrétti, heilbrigði og velferð ásamt sköpun. Börnin leiddu starfið að því leiti að kennarar eltu áhugasvið barnanna. Fljótlega kom í ljós áhugi á geimförum og geimstöðvum. Útsendingar og annar fróðleikur frá alþjóðlegu geimstöðinni hitti beint í mark, ásamt heimatilbúnum viðtölum við „geimfara“. Hljóðfæragerð var einnig vinsæl og hljómsveit hússins sem sífellt breytti um meðlimi líka. Kennarar og börn, ásamt foreldrum voru ánægð með verkefnið og ákveðið var að halda áfram með Biophiliu í Kvistaborg.

„Andinn innan skólans var forvitni“ Biophilia-menntaverkefnið í Fossvogskóla

Guðrún María Ólafsdóttir, Fossvogsskóli

„Andinn innan skólans var forvitni“ fjallar um þær jákvæðu breytingar sem Biophilia-menntaverkefnið olli innan Fossvogsskóla. Verkefnið breytti hugarfari og nálgunum á því viðfangsefni sem verið var að taka fyrir þá stundina.

Fjallað verður um þær breytingar sem urðu m.a. á kennsluaðferðum, stundaskrárgerð og vinnuferlum sem áttu sér stað innan skólans skólaárið 2015-2016 í þeim greinum sem komu að þessu verkefni innan skólans.

Biophilia-menntaverkefnið hefur auðgað alla innan Fossvogsskóla, bæði nemendur og alla aðra starfsmenn. Erindið mun fjalla um það hvernig skólinn breyttist úr því að vera „hefðbundinn“ skóli í Reykjavík í að vera stoltur Biophilu-skóli þar sem nemendur og kennarar fá að njóta sín á sinn hátt og nálgast viðfangsefnið út frá ólíkum sjónarhornum. Hvernig kennarar náðu að flétta saman ólíkar námsgreinar við tónlistina og náttúruvísindin.

Í lokin verður fjallað lítilega um það hvernig haldið hefur verið áfram að kenna í anda Biophiliu í Fossvogsskóla, þar sem sköpunin, upplifunin og túlkunin fá að njóta sín ásamt fræðunum í takt við Aðalnámskrá grunnskóla.

Biophilia – að hugsa út fyrir boxið og fara á flug: upplifun af kennslu Biophilia-menntaverkefnisins á miðstigi grunnskólans og áhrif þess á skólaþróun

Ragna Skinner, Fossvogsskóli

Markmiðið með Biophilia-menntaverkefninu er að hvetja börn til að kanna eigin sköpunargáfu og læra um tónlist, náttúru og vísindi með hjálp nútímatækni.

Erindið fjallar um tilviksrannsókn þar sem skoðað var markvisst og rýnt í, hvort og þá á hvaða hátt starfshættir og hugmyndafræði Biophiliu-menntaverkefnisins hafa áhrif á afstöðu kennara og nemenda sem taka þátt í því.

Fjallað verður stuttlega um hugmyndafræðina sem lá að baki verkefninu. Þá verður fjallað um þörfina fyrir fjölbreytta kennsluhætti í skólakerfinu til að stuðla að einstaklingsmiðuðu námi, m.a. með samþættingu og samkennslu. Einnig var mikilvægi listkennslu innan skólakerfisins skoðað, þá aðallega út frá hlutverki sköpunar og ímyndunarafls í námi og þá sérstaklega í vísindum.

Fram kemur að með fjölbreyttum kennsluháttum hafi tekist að efla þátt skapandi nálgunar bæði í kennslu og námi. Tengsl reynslu og náms voru aukin með því að leggja áherslu á að læra í gegnum framkvæmd og sköpuð voru skilyrði fyrir samþættingu námsgreina og skapandi vinnu.

Málstofa C – Kennsla ungra barna. Stofa H204, kl. 14:45–15:45

Náttúrugreinakennsla í Danmörku

Ragnheiður Pétursdóttir, VUC Ringkøbing Skjern

Tengsl Íslands og Danmerkur eru mikil og margir þættir í samfélögum beggja landa eru keimlíkir. Þrátt fyrir þetta, er stór munur á því hvernig kennsla í náttúrugreinum fer fram. Verkleg og munnleg nálgun í greininni er af allt öðrum toga í Danmörku, og hefðin fyrir verklegum æfingum er mun stærri. Náttúrugreinar teljast að mörgu leiti vera verklegt fag. Mikill munur er almennt á námsmati og vægi tilrauna er mikið.

Síðan Ragnheiður Pétursdóttir útskrifaðist úr KHÍ 2004 hefur hún verið búsett í Danmörku. Hún hefur kennt náttúrugreinar og stærðfræði á öllum stigum grunnskólans. Hana langar að veita innsýn í hvernig Danir standa að náttúrugreinakennslu og hvað hún hefur verið að gera í sínu starfi. Hvernig tilraunir er verið að vinna með, á mismunandi skólastigum. Hvað hún hefur lært og hvað hefur komið henni á óvart. Hana langar að gefa mynd af því umhverfi, sem náttúrugreinakennarar í Danmörku lifa og hrærast í. Með því, vill hún veita íslenskum kennurum, innblástur og aukna innsýn inn í verklega kennslu og tilraunir í náttúrugreinum.

M.Ed.-rannsókn á náttúrufræðikennslu á yngsta stigi

Arna Björg Árnadóttir, grunnskólakennari

Í febrúar 2016 kláraði Arna Björg Árnadóttir meistaranám í kennslufræðum grunnskóla þar sem meistaraverkefni hennar var um rannsókn á náttúrufræðikennslu á yngsta stigi. Hún mun segja frá helstu niðurstöðum rannsóknar sinnar varðandi starfshætti, kennsluaðferðir og námsefni.

Litli skógur

Unnur Henrysdóttir, leikskólinn Stekkjarás

Yngstu nemendurnir og Litli skógur, að vera 2 ára og vilja líka fara í skógarferð.
Að allir fái möguleika á að upplifa frelsið sem fylgir því að vera úti. Að geta gefið yngstu nemendunum frelsi til að hreyfa sig, upplifa fjölbreytni í útiveru, kynnast og rannsaka nánasta umhverfi sitt. Að gefa þeim tækifæri að kynnast því hvað eldri börnin gera í sínum skógarferðum. Af hverju þau fara ekki á sama svæði og eldri börnin. Að sigrast á hindrunum, vinna með úthald og þol. Að gera útiveru að jákvæðum atburði. Að gera svæði að okkar. Allt eru þetta verkefni sem við vinnum að með börnunum. Skógarflauta og skógarvagn eru að sjálfsögðu með í för.

Málstofa D – Sjálfbærni. Stofa H206, kl. 14:45–15:45

Aðferðir í menntun til sjálfbærni: Dæmi tengd jarðvegsvernd og sjálfbærri þróun

Guðrún Schmidt, Landgræðsla ríkisins

Hvernig getur menntun til sjálfbærni, samkvæmt kröfum aðalnámskrár, litið út í skólastofunni? Með hvaða aðferðum er hægt að auka og efla gildi, hæfni og getu nemenda til að stuðla að sjálfbærri þróun innan samfélaga? Fyrirlesarinn, sem er náttúrufræðingur og með MA í menntun til sjálfbærni, mun ræða í erindinu sínu um dæmi í kennslu í menntun til sjálfbærni sem tengist jarðvegsvernd og sjálfbærri þróun. Í þessum dæmum er ekki einungis horft á jarðvegsvernd sem stórt umhverfismál heldur einnig í samhengi við loftslagsbreytingar, matvælaframleiðslu, réttlæti, efnahag og það flókna samhengi sem skapast með aukinni hnattvæðingu. Kennsluaðferðir, sem stuðla að menntun til sjálfbærni, eiga m.a. að gera nemendum kleift að taka þátt í ákvörðunarferlum, efla getu þeirra til að umgangast flókin og þverfagleg mál, skilja samhengi þeirra og vega og meta gildi og viðmið. Dæmin sýna einnig hvernig þróa má verkefni í umhverfismennt yfir í kennslu í menntun til sjálfbærni. Erindið er líka innlegg í umræðuna um það hvað hægt er að gera til þess að styðja kennara í að framfylgja aðalnámskrá varðandi grunnþáttinn sjálfbærni.

Umbreytandi kennslunálganir við flókin sjálfbærnimál

Caitlin Wilson, Landvernd

Í erindinu verður kynnt nýtt efni um kennslufræðilegar nálganir til að takast á við flókin sjálfbærnimál í skólastarfi. Nálganir verða kynntar sem styðja við skapandi og valdeflandi leiðir til að byggja upp hæfni hjá kennurum og nemendum til að skilja betur og fást við erfið og flókin mál. Kennslunálganir fela í sér getu til aðgerða, þverfaglegt nám, kerfisgreiningu, „vond“ vandamál, gagnrýna og skapandi hugsun, og umbreytandi nám. Loftslagsbreytingar og lífbreytileiki eru tekin sem dæmi um svona flókin mál og eru kynntar leiðir til að hanna kennslu um þessi mál.

Náttúra og saga Þingvalla: Þema fyrir miðstig

Ásta Kristjana Guðjónsdóttir og Karl Hallgrímsson, Bláskógaskóli í Reykholti

Kynnt verður þema sem unnið var á miðstigi síðastliðið haust.

Þau Ásta og Karl kalla námskipulagið þema, þar sem tekin eru fyrir viðfangsefni úr náttúrufræði, samfélagsfræði, upplýsingatækni, myndmennt og trúarbragðafræði. Markmiðum námsgreinanna er deilt á þessi þemu og lögð eru fyrir fjölbreytt einstaklings- og hópaverkefni. Þetta fyrirkomulag gefur marga möguleika til að gera námið áhugavert og miða það að þörfum hvers og eins nemanda.

Þingvallaþemað stóð yfir frá 1. september til 10. Nóvember. Í október var farið til Þingvalla. Hæfniviðmið voru meðal annars að nemandi gæti:

  • lýst reynslu sinni, athugun og upplifun af lífverum í náttúrulegu umhverfi,
  • lýst einkennum plantna og dýra, stöðu þeirra í náttúrunni, tengsl þeirra innbyrðis og við umhverfi sitt,
  • útskýrt hvernig aðlögun lífvera að umhverfinu gerir þær hæfari til að lifa af og fjölga sér.

Meðal efnis í þemanu var; landnám Íslands, lífríki í og kringum Þingvallavatn, vatnasvið Þingvalla, myndun landsins og flekahreyfingar, kristnitakan árið 1000, ásatrúin, saga Alþingis og sjálfstæði Íslendinga, og þjóðgarðar á Íslandi.

Málstofa E – Vitund og viðhorf. Stofa H208, kl. 14:45–15:45

Umhverfisvitund unglinga á landsbyggðum og í höfuðborg samkvæmt PISA 2015

Þorlákur Axel Jónsson, Háskólinn á Akureyri

Rannsókn Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), sem fram fer á þriggja ára fresti, á frammistöðu unglinga í náttúrufræði, stærðfræði og á lesskilningi þegar líður að lokum skyldunáms þeirra (PISA) gefur samanburðarhæfar upplýsingar um skólastarf í mörgum löndum. Í síðustu umferð PISA árið 2015 var áherslan á læsi á náttúruvísindi. PISA rannsóknin skilgreindi tvo mælikvarða á umhverfisvitund; meðvitund um umhverfismál og áhyggjur af þróun umhverfismála. Í erindinu verður lýst þeim mun sem fram kemur milli viðhorfa unglinga á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðunum til umhverfismála. Þessi viðhorf verða borin saman við það sem gerist á öðrum Norðurlöndum. Grafist verður fyrir um hvort og þá hvernig megi tengja umhverfisviðhorf nemenda mati þeirra á vinnuanda í bekk, stuðningi kennara og kennsluaðferðum. Einnig verður skoðað hvort þetta hafi breyst frá fyrri umferð PISA sem lagði áherslu á náttúruvísindi árið 2006. Rætt verður um tengsl umhverfisvitundar unglinga við skólastarf og þjóðlega nytjahyggju.

Viðhorf umsjónarkennara á yngsta stigi og miðstigi grunnskóla til kennslu náttúruvísinda

Meyvant Þórólfsson, Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Brynja Stefánsdóttir, Öldutúnsskóli

Með þátttöku íslenska skólakerfisins í alþjóðlegum samanburðarrannsóknum (TIMSS, PISA o.fl.) hefur náttúruvísindamenntun ótvírætt hlotið vaxandi athygli. Jafnframt hefur hugmyndinni um „náttúruvísindamenntun fyrir alla“ vaxið fiskur um hrygg. Meginmarkmið rannsóknarinnar sem hér er greint frá var að kanna viðhorf umsjónarkennara á yngsta stigi og miðstigi grunnskóla til kennslu náttúruvísinda og skoða aðstæður til náms og kennslu. Hugmyndir þriggja reyndra náttúrufræðikennara af yngsta stigi og miðstigi voru fyrst kannaðar með viðtölum, ásamt því að skoða niðurstöður hliðstæðra rannsókna. Gögnin voru nýtt sem grunnur spurningakönnunar, sem lögð var fyrir úrtak umsjónarkennara yngsta stigs og miðstigs í 60 íslenskum grunnskólum. Svör bárust frá 131 kennara í 34 skólum. Samkvæmt niðurstöðum sjá umsjónarkennarar jafnan sjálfir um kennslu náttúruvísinda og þá oftast í almennum kennslustofum en síður í sérbúnum náttúrufræðistofum. Notkun kennslubóka virðist vera ríkjandi við öflun og miðlun þekkingar. Loks vekja niðurstöður spurningar um menntun og forsendur almennra kennara til að kenna náttúruvísindi án stuðnings.

Viðhorf íslenskra unglinga til gildis vísinda

Haukur Arason, Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Vísindi og niðurstöður vísindastarfs hefur orðið æ fyrirferðarmeira í samfélagsumræðu og iðulega vitnað til vísindalegra niðurstaðna bæði þegar fjallað er um persónuleg og samfélagsleg viðfangsefni. Því er áhugavert að skoða hvaða merkingu unglingar leggja í vísindi og vísindalegar niðurstöður og hvaða skilning unglingar hafa á vísindalegum aðferðum. Lagður var spurningalisti fyrir íslenska unglinga sem voru að ljúka skyldunámi. Spurningarnar snerust um viðhorf þeirra til gildis vísinda, hverjum vísindi koma að gagni og til áreiðanleika vísindamanna. Spurningalistinn var lagður fyrir um 350 unglinga árið 2015. Gerð verður grein fyrir niðurstöðum rannsóknar hvað varðar tengsl viðhorfa unglinga til vísinda og skilnings þeirra á eðli vísinda og borið saman við samsvarandi niðurstöður frá 2003.

Smiðja A – Stofa H202, kl. 14:45–15:45

Wireless Datalogging for Middle School Science

John Wayne, PASCO og Soffía Óladóttir, A4

Temperature sensors will be used to show the general concept of datalogging. An activity of measuring surface body temperature will be introduced which can promote student learning and understanding of blood circulation and body temperature regulation. The concept of thermal insulation will be introduced and investigated. pH sensors will be introduced to measure various household liquids and discuss what is acidic and what is basic.

Föstudagur 31. mars 2017 – síðari hluti

Málstofa F – Læsi. Stofa H206, kl. 16:00–17:00

Aðferðir sem efla orðaforða og lesskilning nemenda á námsefni í náttúrufræði.

Anna Sólveig Árnadóttir, M.Ed.; Steinunn Torfadóttir lektor Menntavísindasviði HÍ og Sólrún Harðardóttir námsbókarhöfundur

Í erindinu verður fjallað um hugmyndir að kennsluaðferðum og viðfangsefnum í náttúrufræðum sem hjálpað geta nemendum á miðstigi að skilja hugtök og lesmál í náttúrufræði með hliðsjón af námsbókinni Líf á landi, eftir Sólrúnu Harðardóttur. Kennsluhugmyndirnar byggja á raunprófuðum kennsluaðferðum Beck og McKeown (2001) þar sem markmiðin beinast að því að efla orðskilning, orðaforða, lesskilning, hlustunarskilning og frásagnarhæfni nemenda. Í þessu erindi er byggt á heildstæðri hugsun um hvernig nýta megi námsbókina sem best, bæði fyrir nemendur og kennara.

Læsi á náttúrufræðitexta. Tengsl þekktra orða í námstexta og lesskilnings

Auður Pálsdóttir, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Erla Lind Þórisdóttir, meistaranemi og Sigríður Ólafsdóttir, nýdoktor

Þessi rannsókn beinir sjónum að læsi nemenda á náttúrufræðitexta í 5. og 6. bekk. Markmiðið var að skoða hvaða hlutfall orða í náttúrufræðitextum þarf að skilja til þess að ná 70% lesskilningi (texta námsbóka). Rannsóknir benda til þess að sterkt samband sé milli lesskilnings og orðaforða, en einnig að stærð orðaforðans spái fyrir um hraða framfara í lesskilningi.

Gögnum var aflað með því að leggja fyrir nemendur texta úr tveimur opnum úr námsbókunum Auðvitað, og áttu þeir að strika undir orð sem þeir skildu ekki. Í kjölfarið svöruðu nemendur lesskilningsprófi úr sömu textum og orðskilningskönnun. Greiningin byggðist á að reikna hlutfall orða sem nemendur skilja og bera saman við hlutfall réttra svara á lesskilningsprófi.

Niðurstöður benda til að skýrt samband sé milli orðaforða og lesskilnings. Til þess að skilja 70% af umræddum náttúrufræðitexta þurfa nemendur að skilja rúmlega 98% orðanna. Fari orðskilningur undir 95% hrapar lesskilningurinn niður fyrir 30%.

Vísindalæsi og hugtakaforði

Herdís Magnúsdóttir, Vallaskóli

Í náttúruvísindum er tungumálið uppspretta þekkingar þar sem námsefnið einkennist af upplýsingatexta sem er að miklu leyti byggður upp af hugtökum. Mismunandi textagerðir krefjast þess að nemendur beiti ólíkri lestrartækni til að skilja innihald textans.

Samkvæmt rannsóknum hefur orðið afturför í hæfni íslenskra nemenda í almennu læsi og vísindalæsi. Höfundur bendir á mikilvægi orða- og hugtakaforða fyrir læsi og árangur í náttúruvísindum og leitar leiða til að efla þessa þætti.

Kenningar hugsmíðahyggju, úrvinnslu þekkingar og skema eru samhljóma um að merkingarsköpun eigi sér stað þegar mynduð er brú á milli nýrrar þekkingar og reynslu nemenda. Mikilvægir lykilþættir sem kenningarnar byggja á eru bakgrunnsþekking, reynsla, áhugahvöt, virkni, samvinna, orðræða, námsvitund, rökhugsun og umhverfi.

Rannsóknir sýna góðan árangur kennsluaðferða sem byggðar eru upp í anda ofangreindra kenninga. Nefna má CORI (e. concept-oriented reading instructions) kennslukerfið sem hefur náð marktækum árangri í eflingu áhugahvatar, lesskilnings, hugtakaforða og þekkingu nemenda á vísindum. Þróunarverkefnið Orð af orði hefur einnig náð árangri í auknum lesskilningi og námsárangri grunnskólanemenda með kennsluaðferðum sínum.

Höfundur rýnir í námstækni og kennsluaðferðir sem nýta má til að auka hugtakaforða og vísindalæsi í náttúruvísindum. Í erindinu verða niðurstöður kynntar.

Smiðja B – Stofa K201/202, kl. 16:00–17:00

Tilraunagleði: Skemmtilegar tilraunir á yngra og miðstigi

Ragnheiður Pétursdóttir, VUC Ringkøbing Skjern

Löng hefð er fyrir verklegri kennslu náttúrugreina í Danmörku. Í dönsku aðalnámskránni fyrir náttúrugreinar yngri barna segir meðal annars að „Nám nemenda skal að miklu leyti byggja á eigin upplifunum, reynslu, athugunum og prófunum sem styður nemendur í að þróa með sér verklega færni, sköpun og getu til samvinnu. Ánægja nemenda til að takast á við náttúruna, tækni, lífsskilyrði og lífskjör, auk þeirra löngun til að spyrja spurninga og gera rannsóknir bæði inni og út, skal viðhaldið og kynnt.“

Eftir 13 ár við kennslu náttúrugreina á grunnskólastigi í Danmörku hefur Ragnheiður sankað að sér miklu efni í tengslum við verklega kennslu. Hana langar að deila litlu broti af því með íslenskum kennurum og vonast eftir að geta veitt innblástur og aukna innsýn inn í verklega kennslu og tilraunir í náttúrugreinum. Í smiðjunni verður hægt að prófa ýmsar tilraunir og æfingar sem henta vel á yngsta og miðstigi. Meðal annars verður unnið með efni eins og vatn, andrúmsloft, þrýsting og koltvísýring. Komdu bara og skoðaðu í kistuna hennar.

Smiðja C – Stofa H202, kl. 16:00–17:00

High School Mechanics with Smart Cart and Direct Wireless Sensors

John Wayne, PASCO og Soffía Óladóttir, A4

Direct Wireless sensors for datalogging will be introduced including hands on opportunities for all participants with PASCO’s Wireless Temperature Sensor. Easy to use SPARKvue software will be used for datalogging. PASCO’s Introductory Dynamics System will be used with the new Smart Cart to investigate inclined plane acceleration, conservation of momentum, and various linear mechanics concepts. Finally using the Smart Cart and a Light Sensor the inverse square law for light will be investigated.

Smiðja D – Stofa H203, kl. 16:00–17:00

Vísindavaka: Skapandi skóli og nemendamiðað nám

Margrét Hugadóttir, starfsmaður Skóla á grænni grein hjá Landvernd

Vísindavaka er 8-10 kennslustunda verkefni sem gengur út á það að nemendur vinna eftir ferli vísinda og hanna tilraun. Markmið verkefnisins eru að nemendur verði færir um að tjá sig um vísindalegt ferli og geti beitt orðinu „breyta“. Verkefnið er ætlað nemendum í 6.-10. bekk og getur verið endurtekið árlega.

Nemendur búa til rannsóknarspurningu og prófa sig svo áfram. Í vinnunni er áhersla lögð á sjálfstæð vinnubrögð og verkferlið sjálft. Verkefninu lýkur með vísindasýningu fyrir yngri áhorfendur þar sem nemendur sýna tilraun, kynna vinnu sína og standa fyrir svörum.

Smiðjan hefst á stuttri kynningu á verkefninu þar sem farið verður yfir möguleika og hindranir sem tengjast vinnuferlinu. Í kjölfar hennar fer fram „örvísindavaka“ þar sem þátttakendur fá tækifæri til að setja sig í spor nemenda.

Vísindavaka hefur verið í þróun í 7 ár og verður gefin út á vef með kennslumyndböndum, kennsluleiðbeiningum og tillögum að námsmati nú í vor. Eftirfarandi standa að útgáfunni: Margrét Hugadóttir, Ingibjörg Hauksdóttir, Dögg Lára Sigurgeirsdóttir, Krista Hall og Ævar Þór Benediktsson. Síðan verður hýst hjá Náttúrutorgi á slóðinni visindavaka.natturutorg.is

Smiðja E – Stofa H204, kl. 16:00–17:00

Hvað er góð verkleg æfing?

Guðmundur Grétar Karlsson, Fjölbrautaskóli Suðurnesja

Smiðja um hvaða þættir skipta máli við undirbúning, framkvæmd og eftirvinnslu verklegra æfinga í náttúrufræðigreinum.

Smiðja F – Stofa H208, kl. 16:00–17:00

Vísindaleikir: Eðlisfræði, efnafræði og stjörnufræði í leikskólum

Haukur Arason, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Dýrleif Ingvarsdóttir, Leikskólinn Bjartahlíð, Berglind Sigurðardóttir, Leikskólinn Bjartahlíð og Sigurlaug Vigdís Einarsdóttir, Leikskólinn Laugasól

Í upphafi smiðjunnar verður farið yfir þá möguleika sem verkefnin „Vísindaleikir“ fela í sér fyrir leikskólastarf á sviði náttúrufræða og kynnt bæði eldri verkefni, nýrri verkefni og þau sem nú eru í þróun. Farið verður yfir hlutverk kennara í leikskólastarfi með Vísindaleiki og fjallað um það hvað hafa þarf í huga þegar verið er að hefja starf með Vísindaleiki í leikskóla. Í framhaldi af kynningunni geta þátttakendur í smiðjunni kynnt sér einstaka Vísindaleik, skoðað efnivið sem nýttur er í leikjum og rætt við leikskólakennara sem tekið hafa þátt í að þróa og beita Vísindaleikjum í starfi með börnum. (Ýmsar upplýsingar og texta um vísindaleiki má finna í facebook-hópnum „Vísindaleikir“)

Laugardagur 1. apríl 2017 – fyrri hluti

Málstofa G – Kennslutól og -aðferðir. Stofa H201, kl. 11:00–12:00

Scientix – Verkfærakista náttúrufræðikennara

Guðmundur Grétar Karlsson, Fjölbrautaskóli Suðurnesja

Scientix er verkfæri sem styður við starfsþróun náttúrufræðikennara. Á honum er að finna fjölmörg tækifæri til að þróa sig í starfi. M.a. er að finna raungreinaverkefnabanka sem ætlaður kennurum á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi. Þar eru aðeins verkefni sem eru studd með styrkjum og hafa fengið vottun og hægt að fá þýdd á íslensku.

Af hverju spegluð kennsla í náttúruvísindum á háskólastigi?

Ásta Margrét Ásmundsdóttir, Háskólinn á Akureyri

Spegluð kennsla hefur verið að ryðja sér til rúms á háskólastigi síðastliðin ár þó að hið hefðbundna fyrirlestraform sé ennþá lang algengast. Fyrir þremur árum var skipt yfir í speglaða kennslu í tveimur efnafræðiáföngum við auðlindadeild Háskólans á Akureyri. Síðan þá hafa kennsluhættir verið þróaðir og kennslustofa aðlöguð að speglaðri kennslu.

Í erindinu verður sagt frá ástæðum þeirrar ákvörðunar að breyta kennsluháttum í þessu fagi og ber þar hæst mikið brottfall og lélegur árangur nemenda á prófi sem hefur verið vaxandi vandamál síðustu ár. Fjallað verður um fyrirkomulag kennslunnar, þróun síðustu þriggja ára og hvernig nemendur upplifa hina ýmsu þætti hennar s.s. hópavinnu, upptökur og verkefnatíma, en hið síðastnefnda er byggt á könnunum þar sem bakgrunnur nemenda, undirbúningur í faginu og væntingar til námsins voru einnig kannaðar. Árangur nemenda og brottfall verður skoðað yfir þetta þriggja ára tímabil og hvernig kennsluhættir hafa haft áhrif þar á. Einnig verður fjallað um reynslu kennarans af ýmsum tæknilausnum sem prófaðar hafa verið.

NaNO: Rafræn auðlind í náttúrufræðikennslu

Ester Ýr Jónsdóttir, NaNO hjá Menntavísindasviði Háskóla Íslands

Í erindinu verður greint frá helstu verkefnum við þróun gagnabanka NaNO sem hefur verið settur upp fyrir starfandi kennara af NaNO (Náttúruvísindi á nýrri öld). Einnig verða ræddar leiðir til þróunar gagnabankans og leitað eftir hugmyndum starfandi kennara. Í gagnabankanum er að finna kennsluhugmyndir ásamt kennsluefni fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla þar sem viðfangsefnin eiga það sameiginlegt að flokkast undir náttúruvísindi og tækni 21. aldar. Námsefnið er unnið þannig að það nýtist ólíkum námsgreinum og stuðli að samþættingu þeirra. Viðfangsefnin eru í eðli sínu þvert á greinar, bóklegar og verklegar. Mörg viðfangsefnanna teygja sig einnig yfir í samfélagsgreinar og samspil vísinda, tækni, náttúru og samfélags. Námsefni um þau viðfangsefni á Íslandi sem efst eru á baugi í rannsóknum náttúruvísinda er af skornum skammti og það litla lesefni sem finna má á íslensku er ekki sniðið að þörfum nemenda og kennara. Í NaNO verkefninu er unnt að tengja námsefni skólans við raunveruleg viðfangsefni vísinda og tækni. Vonast er til að slík nálgun efli áhuga nemenda og stuðli að skólakerfi í anda menntunar til sjálfbærni. Gagnabankinn er opinn og aðgengilegur öllum á netinu. Að mörgu er þó að hyggja við smíði gagnabanka og mikilvægt er að hann sé í stöðugri þróun.

Málstofa H – Náttúrufræðimenntun. Stofa H203, kl. 11:00–12:00

Mannfólkið, orkan og náttúran

Ólafur Halldórsson, fyrrv. náttúrufræðikennari við Verzlunarskóla Íslands

Hugrenningar um náttúrufræðimenntun með hliðsjón af tegundinni sem er að rannsaka náttúruna, Homo sapiens. Rannsakandinn er ekki hlutlaus athugandi utan við kerfið sem hann rannsakar heldur hluti af því. Líta má á mannfólkið sem nýja breytu í náttúru jarðar. Þessi breyta er orðin það stór að líkja má við náttúruafl. Ekki er hægt að skoða náttúru jarðar án nýju breytunnar.

Homo sapiens er eina lífveran á jörðinni sem hefur komist upp á lag með að safna að sér orku umfram þarfir. Öll dýr „leitast við“ að fjölga sér og breiðast út, en mannfólkið er einu dýrin sem verða að bremsa sig af vegna þess að geta þeirra er of mikil fyrir umhverfið sem það býr í. Mannfólkið einkennist af öflugu einstaklingseðli og sjálfsvitund, en hefur líka eindæma getu til að vinna saman. Án samlegðaráhrifa einstaklings- og félagseðlis hefði mannfólkinu aldrei tekist að drottna yfir orkubirgðum heimsins.

Í náttúrufræðimenntun þarf að leggja áherslu á sérstöðu mannfólksins. Vitund um vernd umhverfis og meðferð dýra ætti m.a. að miðast við sjálfsvirðingu mannfólksins. Í kennslugögnum þarf víða yfirsýn. Tímabært að taka mið af stórsögu (Big History). Mikilvægur hluti náttúrufræðimenntunar er Náttúrufræðisöfn og aðrir sýningarsalir, en vilja skortir til að koma slíkum hlutum á koppinn.

Náttúrufræði, lífvísindi og eðlisvísindi? Náttúrugreinar?

Meyvant Þórólfsson, Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Arthur Stinner og Harvey Williams (2003) líktu námskrárþróun í náttúruvísindum við garðrækt; nýir og nýir aðilar gerðu stöðugt tilkall til að bæta „sínum plöntum“ í garðinn sem þeir teldu ómissandi. Að sama skapi reyndist erfitt að ákveða hvers konar plöntur þyrftu að víkja, sem væri þó óhjákvæmilegt af því garðurinn væri fyrir löngu orðinn yfirfullur. Hugsa má slíkan garð sem sameign íbúa í fjölbýlishúsi; í augum sumra íbúa fjölbýlishússins eru tilteknar plöntur illgresi sem ætti að uppræta, en í augum annarra eru þær fagrar jurtir sem mega alls ekki víkja. Til að bæta gráu ofan á svart reynist skrattinn jafnan búa í smáatriðunum.

Þrátt fyrir þennan barning telja þróuð iðnríki á Vesturlöndum mikilvægt að rækta slíka garða af alúð og skynsemi og hrófla sem minnst við þeim nema gild rök liggi því til grundvallar, enda teljast náttúruvísindi jafnan kjarnanámssvið í vestrænum skólakerfum. Það gildir þó ekki um vestræna smáríkið Ísland. Þrátt fyrir að það telji sig meðal þróaðra vestrænna iðnríkja sker það sig úr hvað varðar námskrárþróun í náttúruvísindum. Markmið þessa erindis er að rökstyðja þá skoðun með vísan í fjarstæðukennda (surreal) námskrárþróun í náttúruvísindum hérlendis síðustu ár, vandræðagang gagnvart samræmdu námsmati og sérstæða aðkomu Íslands að fjölþjóðarannsókn OECD, sem höfundur þessa erindis hefur kosið að nefna PISA-undrið.

Verklag og/eða viðfangsefni

Allyson Macdonald, Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Athygli verður beint að hæfniviðmiðum í aðalnámskrá þar sem rætt er um verklag og viðfangsefni valinna viðfangsefna. Spurt er hvort og hvernig þessi skipting finnist í helstu námsbókum, hvernig þetta geti auðveldað starf kennara í skipulagningu, markmiðsetningu og námsmati. Að lokum verður hvatt til umræðu meðal þátttakenda um hvort og hvenær þetta gagnist nemendum.

Málstofa I – Umhverfismennt og líffræði. Stofa H204, kl.11:00–12:00

Við erum ekki ein í heiminum – umhverfismenntun í alþjóðlegu samhengi

Margrét Auðunsdóttir, Verzlunarskóli Íslands

Greint verður frá alþjóðlegum, þverfaglegum verkefnum í umhverfisvísindum í framhaldsskóla. Verkefnin snúast um umhverfismál sem eru mikilvæg til framtíðar svo sem loftslagsbreytingar og lífbreytileika. Yfirmarkmið verkefnanna er menntun til sjálfbærni. Í erindinu verður stuttlega lýst fjórum samstarfsverkefnum VÍ með erlendum framhaldsskólum. Eitt verkefnanna er einingabært sem hluti af áfanga nemenda í vistfræði. Hin verkefnin þrjú eru ekki einingabær en nemendur fá að fara til þátttökulandanna og eru þau yfirleitt styrkt þannig að nemendur sleppa við kostnað. Ferðirnar eru gjarnan farnar á skólatíma nemenda.

Nauðsynleg forsenda þess að vel takist til er að nemendur séu virkir. Sjálfbærnimenntun miðar að því að gera fólki kleift að takast á við viðfangsefni sem lúta að samspili umhverfis, félagslegra þátta og efnahags í þróun samfélags. Í erindinu verður gerð tilraun til að skoða hvaða leiðir eru færar til að ná fyrrgreindum markmiðum. Verkefnin sem hér er fjallað um gætu verið ein þeirra leiða. Einnig er skoðað gildi þverfaglegs samstarfs. Varpað er fram þeirri spurningu hvernig hægt sé að meta árangur, en það er óhjákvæmilega ein af forsendum áframhaldandi þróunar á skólastarfi. Nefnd verða dæmi um matsaðferðir sem notaðar voru í samstarfsverkefnunum. Slíkt árangursmat skilar sér síðan vonandi með hnitmiðaðri og bættri menntun.

Ber ég ábyrgð á hlýnun jarðar?
Könnun á umhverfisvitund framhaldsskólanema á Akureyri

Brynhildur Bjarnadóttir, Háskólinn á Akureyri

Umhverfismál eru gríðarlega ofarlega á baugi í heiminum öllum nú um mundir og miklu skiptir að sú kynslóð sem erfir landið hafi haldgóða þekkingu á þeim. Með Parísar samkomulaginu erum við skuldbundin til aðgerða og mikilvægustu breyturnar í þeirri sviðsmynd eru ungt fólk sem verða framtíðarneytendur. Í erindinu verður fjallað um viðhorf og þekkingu framhaldsskólanemenda á umhverfis- og loftslagsmálum. Byggist umhverfisvitund þeirra á þeirri þekkingu sem þeir fá í gegnum skólakerfið? Eða er hún aðalega tilkomin af utanaðkomandi ástæðum t.d. upplýsingum úr fjölmiðlum, af netinu, í gegnum upplifun o.s.frv. Greint verður frá niðurstöðum netkönnunar sem lögð var fyrir framhaldsskólanemendur á Akureyri. Í könnuninni var leitast við að skoða atriði eins og þekkingu á umhverfismálum, viðhorf nemenda til þeirra, þá ábyrgð sem nemendur telja sig bera og loks athafnir/heðgun unglinganna.

Verkefna líffræði

Þórhalla Arnardóttir, Verzlunarskóli Íslands

Nám á 21. öld, gagnrýnin hugsun, frumleiki og hugmyndaauðgi.

Lokaáfangi á líffræðibraut Verzlunarskóla Íslands sem er 5 f-ein. Í áfanganum er megináhersla á sjálfstæð vinnubrögð þar sem nemendur vinna bæði einstaklingsverkefni og hópaverkefni. Þar fá nemendur tækifæri til að nota og dýpka þekkingu sína á ýmsum viðfangsefnum líffræðinnar. Við úrlausn verkefna eru notuð ýmiss konar búnaður, tæki og einnig forrit. Stofnanir og fyrirtæki á líffræðisviði hafa einnig tekið vel á móti nemendum bæði í tengslum við heimildaverkefni og rannsóknir þeirra. Þar að auki fara nemendur í heimsókn og fá kynningu á starfsemi fyrirtækja og stofnana á líffræðisviði. Áfanginn er símatsáfangi þar sem lokaafurðir verkefna nemenda og kynning nemenda á þeim, eru metin.”

Málstofa J – Ný sýn á náttúrufræði, Stofa H208, kl. 11:00–12:00

LÍFRÍKI: Hafið í huga

Magnús Jónatansson, Lífríki

Lífriki hefur í samvinnu við MMS, kennara og sjávarlíffræðinga samið námefni fyrir aldurshópinn 7-13 ára er varðar ferðalag og lífshætti hvala (hnúfubaka) og annara dýra með það fyrir augum að skapa sterka umhverfisvitund sérstaklega er varðar plastmengun í hafinu. Allir nemendur á aldursbilinu 7-13 ára á Íslandi munu hafa aðgang að tölvuleik þar sem hvalir og sjórinn er í aðalhlutverki. Auk þess munu nemendur geta fylgst með lifandi hval – sem hefur verið merktur – í símanum sínum eða tölvunni, og ferðalagi hans og hátterni i hafinu. Að auki geta nemendur spilað leiki „edugaming“ þar sem reynir á þekkingu og hæfni. Um leið skapast vitundarvakning sem stuðlar að auknum áhuga nemenda á því að láta til sín taka í verkefnavinnu sem námsefnið býður upp á.

Lífríki hefur áhuga á því að kynna þetta námsefni fyrir kennurum, en um er að ræða viðfangsefni sem ætlað er til allra landa sem annt er um umhverfisvernd.

Þetta er ný nálgun sem varðar allan heiminn og Ísland og íslenskir nemendur verið leiðandi.

Náttúrugreinakennsla í Danmörku

Ragnheiður Pétursdóttir, VUC Ringkøbing Skjern

Tengsl Íslands og Danmerkur eru mikil og margir þættir í samfélögum beggja landa eru keimlíkir. Þrátt fyrir þetta, er stór munur á því hvernig kennsla í náttúrugreinum fer fram. Verkleg og munnleg nálgun í greininni er af allt öðrum toga í Danmörku, og hefðin fyrir verklegum æfingum er mun stærri. Náttúrugreinar teljast að mörgu leiti vera verklegt fag. Mikill munur er almennt á námsmati og vægi tilrauna er mikið.

Síðan Ragnheiður Pétursdóttir útskrifaðist úr KHÍ 2004 hefur hún verið búsett í Danmörku. Hún hefur kennt náttúrugreinar og stærðfræði á öllum stigum grunnskólans. Hana langar að veita innsýn í hvernig Danir standa að náttúrugreinakennslu og hvað hún hefur verið að gera í sínu starfi. Hvernig tilraunir er verið að vinna með, á mismunandi skólastigum. Hvað hún hefur lært og hvað hefur komið henni á óvart. Hana langar að gefa mynd af því umhverfi, sem náttúrugreinakennarar í Danmörku lifa og hrærast í. Með því, vill hún veita íslenskum kennurum, innblástur og aukna innsýn inn í verklega kennslu og tilraunir í náttúrugreinum.

Kynning á kennsluleiðbeiningum fyrir Litróf náttúrunnar – Eðlisfræði 1 og 2

Helga Snæbjörnsdóttir, grunnskólakennari í meistaranámi

Út eru komnar kennsluleiðbeiningar við Litróf náttúrunnar – Eðlisfræði 1 og 2 (3 kemur út í vor). Kennsluleiðbeiningarnar eru gefnar út á stafrænu formi á vef Menntamálastofnunar, mms.is. Höfundur þeirra, Helga Snæbjörnsdóttir er starfandi náttúrufræðikennari og leggur áherslu á einfaldar verklegar æfingar ásamt tenglum á sýndartilraunir.

Smiðja G – Stofa H202, kl. 11:00–12:00

High School Science Technology on all Platforms:
iPad, Tablets, Smart Phones, Chromebooks and Computers

John Wayne, PASCO og Soffía Óladóttir, A4

PASCO’s award winning SPARKvue software will be demonstrated on multiple platforms. With a consistent user interface and identical analysis tools participants will be able to see how easily a classroom with mixed computer hardware, tablets and even phones can function for hands on science. Participants are encouraged to download the SPARKvue software before workshop at either the Google Play Store or the Apple App Store and try their own tablet or phone with the sensors present. SPARKvue’s Shared Session feature will also be demonstrated as one set of data is gathered at the front of the class and each participant then will be able to download their own copy of the data and preform analysis as a student would do.

Smiðja H – Stofa H206, kl. 11:00–12:00

Vindmyllusmíði: Orka, rafmagn og vindmyllur

Baldur Brynjarsson, Baldur Helgi Þorkelsson, Harpa Ósk Björnsdóttir og Sólveig Ásta Einarsdóttir, Vísindasmiðja Háskóla Íslands

Verkefnið heitir Vindmyllusmíði og snýst um orku, rafmagn og hvernig vindmyllur virka. Í námskeiðinu skoðum við hvað rafmagn er og hvernig það er búið til. Mikið er lagt upp úr að setja hluti í hendur nemenda, sem hjálpar til við að varpa ljósi á umræðuefnið, t.d. segla, áttavita, rafal, rafhlöður og fleira. Síðan er fjallað um endurnýjanlega orku og orkunotkun í daglegu samhengi nemenda. Þátttakendur fá tækifæri til að hanna, útfæra og smíða eigin vindmyllu og prófa getu hennar til þess að framleiða rafmagn.

Vindmyllusmíði er samstarfsverkefni Vísindasmiðju Háskóla Íslands og Landsvirkjunar og miðar að því að fræða börn um eðli rafmagns og almennra vísinda.

Laugardagur 1. apríl 2017 – síðari hluti

Smiðja I – Stofa K201/202, kl. 12:15–13:15

Tilraunagleði: Skemmtilegar tilraunir á yngra og miðstigi

Ragnheiður Pétursdóttir, VUC Ringkøbing Skjern

Löng hefð er fyrir verklegri kennslu náttúrugreina í Danmörku. Í dönsku aðalnámskránni fyrir náttúrugreinar yngri barna segir meðal annars að „Nám nemenda skal að miklu leyti byggja á eigin upplifunum, reynslu, athugunum og prófunum sem styður nemendur í að þróa með sér verklega færni, sköpun og getu til samvinnu. Ánægja nemenda til að takast á við náttúruna, tækni, lífsskilyrði og lífskjör, auk þeirra löngun til að spyrja spurninga og gera rannsóknir bæði inni og út, skal viðhaldið og kynnt.“

Eftir 13 ár við kennslu náttúrugreina á grunnskólastigi í Danmörku hefur Ragnheiður sankað að sér miklu efni í tengslum við verklega kennslu. Hana langar að deila litlu broti af því með íslenskum kennurum og vonast eftir að geta veitt innblástur og aukna innsýn inn í verklega kennslu og tilraunir í náttúrugreinum. Í smiðjunni verður hægt að prófa ýmsar tilraunir og æfingar sem henta vel á yngsta og miðstigi. Meðal annars verður unnið með efni eins og vatn, andrúmsloft, þrýsting og koltvísýring. Komdu bara og skoðaðu í kistuna hennar.

Smiðja J – Stofa H202, kl. 12:15–13:15

College and University Experiments for Datalogging

John Wayne, PASCO og Soffía Óladóttir, A4

PASCO’s powerful Capstone software will be used to look at linear mechanics using the new Smart Cart and PASCO’s dynamic system. A second experiment will be set up to investigate diffraction patterns from laser light passing through various single-slits and multiple-slits. This experiment will feature PASCO’s top of the line 850 interface, perfect for university physics labs. Light intensity will be plotted verses position using PASCO sensors. A third experiment will also be demonstrated again using the 850 interface and Capstone software, this time exploring an LRC circuit. This experiment will also demonstrate the multipage authoring features of the Capstone software. Finally a Video Analysis of projectile launched from a moving cart with Capstone software.

Smiðja K – Stofa H203, kl. 12:15–13:15

Skerðiensím og rafdráttur

Þórhallur Halldórsson, Fjölbrautaskólinn við Ármúla

Verkefnið er sett upp sem rannsókn á glæp og tekur um 50 mín í framkvæmd. Notuð verða skerðiensím til að klippa niður DNA fengið úr nokkrum ólíkum einstaklingum (fórnarlambi, grunuðum einstaklingum og óþekkt sýni af vetvangi). Sýnin (DNAið) eru meðhöndluð með skerðiensímum sem klippa í ákveðnar raðir í DNAinu. Breytileiki milli einstaklinga gerir það að verkum að ensímin klippa erfðaefnið ólíkt niður milli einstaklinga. Að lokinni meltingu sýnanna er þeim hlaðið á agarósagel, þau rafdregin og niðurstöður skoðaðar í farsíma. Myndin sem upp kemur á að vísa á hver framdi ódæðið. Verkefninu er ætlað að sýna nemendum virkni skerðiensíma, breytileika í erfðaefni, rafdrátt og nýtingu þeirrar tækni til úrlausna á ýmsum málum, þar með talið í glæparannsóknum.

Smiðja L – Stofa H204, kl. 12:15–13:15

Spjaldtölvur í náttúrufræðikennslu

Svava Pétursdóttir, Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Í smiðjunni verður unnið með spjaldtölvur, skoðuð verða nokkur smáforrit sem nýst geta í náttúrufræðinámi og prófaðar verða verkefnahugmyndir og mismunandi leiðir sem nemendur geta farið til að sýna fram á hvað þeir hafa lært. Gott er ef þátttakendur koma með eigin tæki.

Básar og veggspjöld – allt málþingið

Bás A – Vísindi fyrir ungu kynslóðina

Guðfinna Rósantsdóttir, A4, kynnir efni fyrir ungu kynslóðina.

Bás B – Fuglafár: spil fyrir fluggáfað fólk

Fuglafár er nýtt, íslenskt spil sem hefur það að markmiði að hjálpa leikmönnum að þekkja nöfn og útlit íslensku varpfuglanna. Leikmenn þurfa ekki að vita neitt um fugla til að spila Fuglafár en að öllum líkindum verða þeir orðnir fuglafræðingar áður en þeir vita af! Spilið er ætlað sem námsgagn í náttúrufræði í 2.-7. bekk en auk þess að leyfa nemendum að spreyta sig á leiknum geta kennarar nýtt sér efni þess við kennslu í fuglafræði.

Fuglafár inniheldur spilaborð, poka með 60 flipum, spilastokk með 30 spilum og 12 blaðsíðna bækling með leiðbeiningum og ýmsum fróðleik um fuglana. Þrjátíu fuglategundir af þeim 75 sem verpa á landinu að staðaldri er að finna í spilinu en þær eru allar einkennandi fyrir íslenska náttúru. Höfundar eru Birgitta Steingrímsdóttir, líffræðingur og Heiðdís Inga Hilmarsdóttir, nemi í vöruhönnun en teikningar gerði Jón Baldur Hlíðberg. Fuglafár hlaut Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands árið 2016.

Bás C – Hið íslenska náttúrufræðifélag

Hið íslenska náttúrufræðifélag kynnir starfsemi félagsins, Náttúrufræðinginn og annan fróðleik fyrir almenning, kennara og nemendur.

Bás D – LÍFRÍKI: Hafið í huga

Lífriki hefur í samvinnu við MMS, kennara og sjávarlíffræðinga samið námefni fyrir aldurshópinn 7-13 ára er varðar ferðalag og lífshætti hvala (hnúfubaka) og annara dýra með það fyrir augum að skapa sterka umhverfisvitund sérstaklega er varðar plastmengun í hafinu.

Lífríki hefur áhuga á því að kynna þetta námsefni fyrir kennurum, en um er að ræða viðfangsefni sem ætlað er til allra landa sem annt er um umhverfisvernd.

Þetta er ný nálgun sem varðar allan heiminn og Ísland og íslenskir nemendur verið leiðandi.

Bás E – Námsefnissýning Menntamálastofnunar

Nýjasta námsefni Menntamálastofnunar verður til sýnis bæði á skjá og á borði.

Bás F – NaNO: Rafræn auðlind

Verkefnisstjórar NaNO kynna Gagnabanka NaNO, rafræna auðlind fyrir kennara og nemendur.

Veggspjald – Alsaga eða 13800 milljón árin frá miklahvelli til mannheima

Ólafur Halldórsson og Lúðvík E. Gústafsson, Samband íslenskra sveitarfélaga

Alsaga er samþætt saga alheims, jarðarinnar, lífsins og mannheima. Með henni er reynt að skilja tilveru okkar sem órofið ferli frá hinu einfalda til hins flókna.

Greina má alsöguna í þrjá áfanga. Sá fyrsti er um það hvernig efni og orka verða til í sístækkandi alheimi, öðrum áfanga er náð þegar lífverur myndast úr flóknum efnum og loks þegar efnið fer að hugsa í einni lífveru, Homo sapiens.

  1. Efnið verður til: Myndun alheimsins, stjarna og stjörnuþyrpinga. Myndun stærri frumefna eins og kolefnis, súrefnis o. fl.
  2. Efnið lifnar við: Eftir myndun sólkerfisins og jarðarinnar verða til lífverur á jörðinni, fyrst einfrumungar, síðan fjölfrumungar.
  3. Efnið fer að hugsa: Meðal spendýra voru mannapar sem þróuðust í mannverur og dreifðust út úr Afríku um alla jörðina. Sérstök þróun heilans gerir manninum kleift að öðlast sjálfsvitund. Með henni nær hann að höndla efni og orku á áður óþekktan hátt og er orðinn ábyrgur fyrir velferð allra lífvera á jörðinni.